Réttur til örorkulífeyris: Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri verði hann fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira af starfsgetu, hefur greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. 2 ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Örorkulífeyrir greiðist ef óvinnufærni varir í að minnsta kosti 6 mánuði, en ekki er greiddur örorkulífeyrir fyrstu 3 mánuðina sem sjóðfélagi er óvinnufær.

Vakin er athygli á því að þær umsóknir sem berast til lífeyrissjóðsins vegna örorkulífeyris verða skoðaðar af þverfaglegu teymi sem starfar í umboði VIRK starfsendurhæfingarsjóðs þ.m.t. trúnaðarlækni. Þar er m.a. metið hvort raunhæft sé að vísa einstaklingi í starfsendurhæfingu.

Áunninn lífeyrir: Sjóðfélagi sem greitt hefur til lífeyrissjóðsins í að minnsta kosti 2 ár á rétt á áunnum örorkulífeyri sem er jafn áunnum réttindum sjóðfélaga til ellilífeyris.

Framreikningur: Hafi sjóðfélagi greitt í lífeyrissjóð í 3 ár af síðustu 4 árum og 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum á hann rétt á framreikningi. Með framreikningi er bætt við áunninn rétt, þeim stigum sem ætla mætti að sjóðfélagi hefði áunnið sér fram að 65 ára aldri. Til að ákvarða framreiknuð réttindi er miðað við meðaltal inngreiðslna sjóðfélaga síðustu 4 árin á undan orkutapi. Framreikningur er gerður fyrir hvern og einn sjóðfélaga, en einungis ef til orkutaps kemur. Ekki má rekja orkutap til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Hve lengi greitt: Þar til sjóðfélagi hefur aftur öðlast vinnufærni. Ef orkutap er varanlegt er örorkulífeyrir greiddur fram að töku ellilífeyris. Sjóðfélagi á því rétt á örorkulífeyri til 67 ára aldurs. Örorkulífeyrir hefur ekki áhrif til skerðingar á ellilífeyrisréttindum.

Greiðslutilhögun: Örorkulífeyrir er greiddur út mánaðarlega, eftir á.

Umsókn um útgreiðslu: Sækja þarf skriflega um örorkulífeyri til að útgreiðslur hefjist. 

Staðfesting til Tryggingastofnunar: Ætli sjóðfélagi að sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun þarf hann áður að sækja um örorkulífeyri í öllum lífeyrissjóðum sem hann á réttindi í. Staðfesting á umsókn verður send til Tryggingastofnunar eftir að umsókn um útgreiðslu hefur verið móttekin.