Langflestir greiða í fleiri en einn lífeyrissjóð yfir starfsævina. Ástæðuna má rekja til þess að kjara- og ráðningarsamningar kveða oft á um í hvaða lífeyrissjóð skuli greiða og því er ekki alltaf frjálst val um lífeyrissjóð. Lífeyrisréttindi tapast ekki þótt sjóðfélagi eigi réttindi í fleiri en einum lífeyrissjóði, en ekki er heimilt að flytja lífeyrisréttindi á milli lífeyrissjóða fyrr en við töku lífeyris.

Langflestir lífeyrissjóðir á Íslandi hafa gert með sér Samkomulag um samskipti lífeyrissjóða sem einfaldar umsóknarferlið til muna. Samkvæmt því þarf sjóðfélagi aðeins að sækja um útgreiðslu lífeyris hjá einum lífeyrissjóði sem er aðili að samkomulaginu. Sótt er um í þeim lífeyrissjóði sem greitt hefur verið mest til, eða greitt var til síðast. Sá sjóður sér svo um að senda umsókn og fylgigögn á aðra þá sjóði sem eru aðilar að samkomulaginu ef við á og safna lífeyrisgreiðslum saman.

Flestir lífeyrissjóðir á Íslandi viðhalda sameiginlegri skrá um greiðslur sjóðfélaga í lífeyrissjóði, svokallaðri nafnaskrá. í henni kemur fram í hvaða lífeyrissjóði sjóðfélagi hefur greitt og hvenær. Nafnaskránna má nálgast á lífeyrisyfirlitum sem send eru til sjóðfélaga tvisvar á ári, en eru auk þess aðgengileg í Netbanka Arion banka.

Athugið að ekki eru allir lífeyrissjóðir landsins aðilar að Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða. Sækja þarf sérstaklega um útgreiðslur lífeyris til þeirra lífeyrissjóða sem ekki eru aðilar að samkomulaginu. Nánari upplýsingar um það á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.

Samkomulag um samskipti lífeyrissjóða gildir aðeins um útgreiðslu lífeyrisréttinda en ekki séreignar. Sjálfur þarf sjóðfélagi að sækja um í öllum þeim sjóðum sem hann kann að eiga séreign í.