21.01.2020

Ein hæsta raunávöxtun Lífeyrissjóðs Rangæinga

Árið 2019 var sjóðfélögum Lífeyrissjóðs Rangæinga gjöfult. Nafnávöxtun sjóðsins nam 11,0% sem samsvarar 8,1% raunávöxtun1. Síðustu fimm ár er því hrein meðalraunávöxtun sjóðsins á ársgrundvelli 5,0%, síðast liðin tíu ár 4,9% og ef litið er til síðustu 25 ára er meðalraunávöxtun sjóðsins 3,9%2

Óhætt er að segja að árið 2019 hafi verið viðburðarríkt á helstu verðbréfamörkuðum.

Innlend skuldabréf var sá eignaflokkur sem skilaði mestri hlutdeild í ávöxtun Lífeyrissjóðs Rangæinga árið 2019. Innlendur skuldabréfamarkaður skilaði heilt yfir mjög góðri ávöxtun á árinu sökum lækkandi raunvaxtastigs og lækkun verðbólguálags. Ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa var á bilinu 5,3% til 23,0% og ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa var á bilinu 3,7% til 8,9% sem rekja má til lækkun verðbólguálags, þar af gerðu lengstu skuldabréfin heilt yfir betur en þau styttri.

Erlend hlutabréf var aftur á móti sá eignaflokkur sem hækkaði einna mest á árinu, þrátt fyrir óvissu og sviptivinda í alþjóðastjórnmálum. Heimsvísitala hlutabréfa hækkaði um 25,2% mælt í Bandaríkjadollar, eða alls 30,2% mælt í íslenskum krónum sem rekja má til veikingar krónunnar á móti helstu viðskiptamyntum á árinu. Frá afnámi gjaldeyrishafta hefur stjórn Lífeyrissjóðs Rangæinga haldið sig við áður markaða stefnu um að auka vægi erlendra eigna í eignasafni sjóðsins í skrefum og eru þær nú um 20,0% af heildareignum.

Innlendur hlutabréfamarkaður var sömuleiðis á góðu róli og skilaði einnig á heildina litið mjög góðri ávöxtun á árinu. Úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 31,4% á árinu en gengisþróun Marel skýrir að miklu leyti þessa hækkun þar sem félagið vigtar um helming vísitölunnar.

Stjórn lífeyrissjóðs Rangæinga Lífeyrissjóður Rangæinga leitast ávallt við að hámarka ávöxtun að teknu tilliti til áhættu og að tryggja sjóðfélögum, mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins.

 

 

 

1 Athuga skal að ávöxtunartölur fyrir árið 2019 miða við óendurskoðað uppgjör sjóðsins.
2 Ávöxtunartölur hafa ekki verið endurreiknaðar v. áranna 1995 - 2012 með ttt. mismunar á markaðsvirði verðbréfa og virði þeirra m.v. kaupkröfu en sjóðurinn breytti uppgjörsaðferð sinni í samræmi við breytingar á reglum ársreikninga árið 2016.

 

 

Til baka