23.03.2020

Fyrirframgreiðsla viðbótarsparnaðar heimiluð frá 1. apríl

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá snýr hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 að fyrirframgreiðslum viðbótarsparnaðar. Um er að ræða sambærilegt úrræði og var í gildi á árunum 2009-2014 og gildir eingöngu um frjálsa séreign úr viðbótarsparnaði. Þrátt fyrir að Lífeyrissjóður Rangæinga bjóði ekki upp á viðbótarsparnað þá liggur fyrir að margir sjóðfélagar eru með viðbótarsparnað í öðrum sjóðum. Því vill sjóðurinn koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

  • Heildargreiðsla að hámarki 12 milljónir kr. á einstakling, þó aldrei meira en uppsöfnuð inneign einstaklings þann 1. apríl 2020.
  • Greitt í jöfnum mánaðarlegum greiðslum, 800.000 kr. á mánuði, að frádreginni staðgreiðslu tekjuskatts, á allt að 15 mánuðum frá umsókn.
  • Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð er að ræða.
  • Ef einstaklingur á viðbótarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal gera grein fyrir því í umsókn, en 12 milljón kr. hámarkið gildir um alla vörsluaðila viðbótarsparnaðar samtals.
  • Umsóknartímabil: 01. apríl 2020 til 31. desember 2020.
  • Stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í apríl.

Vakin er athygli á að frumvarpið hefur enn ekki verið samþykkt svo að ofangreint gæti tekið einhverjum breytingum í meðferð þingsins.

Undirbúningur er þegar hafinn og verða frekari upplýsingar um úrræðið birtar þegar þær liggja fyrir.

 

Til baka