Réttindaávinnsla

Í upphafi var sjóðurinn með jafna réttindaávinnslu

Í upphafi byggði Lífeyrissjóður Rangæinga réttindagrunn sinn á stigakerfi þ.e. greiðslur sjóðfélaga breyttust í réttindi eða stig samkvæmt reiknireglum jafnrar réttindaávinnslu.

Breytingar urðu á réttindaávinnslu lífeyrissjóða á Íslandi

Árið 2005 og fyrr spratt upp mikil umræða um samræmingu réttindakerfa lífeyrissjóðanna í landinu en þeir höfðu ýmist byggt á stigasöfnun þ.e. jafnri réttindaávinnslu og eða aldurstengdri réttindaávinnslu þar sem iðgjaldagreiðslur vigtuðu mismikið í réttindum eftir aldri viðkomandi. Mest vigtuðu þau iðgjöld til réttinda þar sem sjóðfélagi var sem yngstur.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag í október 2005 um tilhögun réttinda við breytingar á réttindaávinnslu yfir í aldurstengd réttindi. Megininntak samkomulagsins fólst í því að tryggja einstaklingum rétt til þess að greiða áfram iðgjöld til þess sjóðs sem viðkomandi var í ef hann stæði frammi fyrir því að glata umtalsverðum réttindum við að færast til sjóðs sem veitir honum einungis aldurstengd réttindi. Árið 2006 var gerð breyting á réttindakerfum velflestra stigasjóða á landinu þ.á.m. Lífeyrissjóðs Rangæinga.

Í dag býður sjóðurinn upp á blandaða leið - aldurstengda og/eða jafna réttindaávinnslu

Lífeyrissjóður Rangæinga tók upp blandaða leið jafnrar og aldurstengdrar réttindaávinnslu árið 2006. Réttindi til lífeyris eru reiknuð í krónum og ráðast af því iðgjaldi sem greitt er til sjóðsins hverju sinni. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til sjóðsins.

  • Aldurstengd réttindaávinnsla: þeir sjóðfélagar sem voru yngri en 25 ára þann 1. ágúst 2006 færðust strax í aldurstengda réttindaávinnslu.
  • Jöfn réttindaávinnsla eða blönduð leið: aðrir eldri sjóðfélagar færast í jafna réttindaávinnslu eða blandaða leið allt eftir því hvernig forsaga viðkomandi sjóðfélaga er hjá sjóðnum. Nánar er fjallað um grundvöll lífeyrisréttinda í 10. kafla samþykkta sjóðsins.